Samþykktir fyrir Unga fjárfesta

Nafn félagsins, heimili og tilgangur

1. gr.                     

Félagið heitir Ungir fjárfestar.

2. gr.                     

Aðsetur félagsins og varnarþing er í Reykjavík.                                             

3. gr.                     

Tilgangur félagsins er

 1. að skapa vettvang fyrir faglega umræðu og tengsl milli félagsmanna
 2. að vekja áhuga félagsmanna og ungs fólks á fjármálum, fjárfestingum, sparnaði og verðbréfamarkaði

4. gr.                     

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því

 1. að halda reglulega umræðu- og fræðslufundi um fjármál, fjárfestingar, sparnað og verðbréfamarkað
 2. að halda úti heimasíðu með fræðsluefni um fjárfestingar

Félagsstjórn

5. gr.                   

Stjórn skal skipuð 6-7 félagsmönnum. Kosningar til stjórnar skal auglýsa á sannanlegan hátt 2 vikum, hið minnsta, fyrir boðaðan aðalfund. Stjórn skal skipuð formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera, fræðslustjóra og 1-2 meðstjórnendum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda.

6. gr.                   

Stjórn félagsins stýrir málefnum félagsins með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Hún tekur ákvarðanir um starfsemi félagsins og er ábyrg fyrir fjárreiðum og skuldbindingum gagnvart öðrum aðilum.

7. gr.                   

Formaður stjórnar ritar firma félagsins. Formaður og gjaldkeri rita prókúru félagsins.

8. gr.                   

Formaður, í forföllum hans varaformaður, kemur fram fyrir hönd félagsins.

9. gr.                   

Formaður, í fjarveru hans varaformaður, stjórnar fundum stjórnar. Í fjarveru þeirra stjórnar einhver stjórnarmanna fundi samkvæmt ákvörðun hverju sinni.

10. gr.                

Varaformaður sinnir hlutverki formanns í forföllum hans og öðrum tilfallandi störfum fyrir félagið.

11. gr.                

Ritari, í fjarveru hans einhver stjórnarmanna, ritar fundargerðir stjórnarfunda.

12. gr.                

Gjaldkeri ber ábyrgð á bókhaldi félagsins. Gjaldkeri undirbýr fjárhagsáætlun félagsins eitt ár fram í tímann og leggur hana fyrir stjórn til samþykktar fyrir septemberlok ár hvert. Verði gjaldkera ljóst að tap sé á rekstri félagsins skal boða til fundar innan stjórnar hið fyrsta og tekin ákvörðun um aðgerðir.

13. gr. 

Fræðslustjóri sér um upptökur fræðslufunda og hefur umsjón með heimasíðu félagsins.

14. gr.                

Meðstjórnendur bera ábyrgð á skipulagi fræðslufunda og markaðssetningu félagsins.

15. gr.                

Stjórn félagsins skiptir að öðru leyti með sér verkum með þeim takmörkunum sem lög þessi setja.

16. gr.                

Stjórn skal leitast til þess að efla samskipti við önnur félög fjárfesta, innlend sem erlend.

17. gr.                

Reikningsár félagsins er á milli aðalfunda. Reikningum félagsins skal lokað 10 sólarhringum fyrir boðaðan aðalfund. Endurskoðendur félagsins skulu fá reikninga til endurskoðunar eigi síðar en 4 sólarhringum fyrir aðalfund svo hægt sé að bera þá upp til samþykktar.

18. gr.                

Skipunartími stjórnar er á milli aðalfunda.

19. gr.                

Stjórn skal halda fundi eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði. Formaður boðar til stjórnarfunda með minnst viku fyrirvara. Stjórnarmeðlimir geta óskað þess að boðað verði til stjórnarfundar.

20. gr.                

Meirihluti atkvæða ræður á stjórnarfundi en falli atkvæði jafnt fer formaður með oddaatkvæði. Stjórn telst ályktunarbær ef meirihluti stjórnarmeðlima situr fund.

21. gr.                

Komi fram tillaga um vantraust á stjórn eða einstaka stjórnarmeðlimi skal stjórn boða til félagsfundar, með tryggilegum hætti, innan tveggja vikna frá þeim tíma er tillagan barst til stjórnar. Fundurinn er lögmætur ef einn þriðji hluti félagsmanna mætir. Tillagan hlýtur samþykki ef þrír fjórðu hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði. Hljóti tillaga samþykki telst viðkomandi stjórn eða stjórnarmeðlimur hafa látið af embætti að fundinum loknum og skal fundarstjóri boða til aukafundar innan tveggja vikna, með viku fyrirvara hið minnsta, með tryggilegum hætti. Á þeim fundi skal kjósa stjórn eða stjórnarmann, sem gegnir embætti fram að næsta aðalfundi. Meirihluti atkvæða ræður kosningu. Framboð til stjórnar skal berast fundarstjóra fyrir upphaf fundar. Ákvæði þessarar greinar gilda einnig, eftir því sem við á, ef embættismenn félagsins segja af sér.

22. gr.                

Stjórn eða einstakir stjórnarmeðlimir skulu sinna störfum sínum af kostgæfni, stunda heiðarleg vinnubrögð, vekja traust og virðingu út á við og leitast við að styrkja samstarf og samstöðu félagsmanna.

Fjármögnun

23. gr.                

Stjórn félagsins skal leita leiða til fjármögnunar félagsins. Heimilt er að fjármagna félagið með styrkjum og félagsgjöldum. Ekki er heimilt að taka við styrkjum frá fyrirtækjum á hlutabréfamarkaði.

Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er stjórn ekki heimilt að taka við styrkjum frá viðskiptabönkum nema jafnræðis sé gætt milli þeirra.

24. gr.                  

Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Félagsgjöld skulu innheimt árlegaFélagsgjöld fást ekki endurgreidd.

Félagsaðild

25. gr.                  

Félagið er opið fólki á aldrinum 18-35 ára sem á lögheimili hér á landi. Félagsmenn skulu skrá sig í félagið á heimasíðu félagsins. Félagsmaður nýtur fullra félagsréttinda eftir að nafn hans hefur verið fært í félagaskrá og félagsgjald verið greitt.  

26. gr.                  

Stjórn félagsins, að frumkvæði 50 félagsmanna, er heimilt að víkja félagsmanni úr félaginu vegna ámælisverðrar háttsemi. Skila þarf skriflegri beiðni til stjórnar þar sem ámælisverð háttsemi er rökstudd á ítarlegan hátt.

Aðalfundur

27. gr.                  

Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. febrúar ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti.  Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála.  Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
 2. Skýrsla stjórnar lögð fram
 3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
 4. Lagabreytingar
 5. Ákvörðun félagsgjalds
 6. Kosning stjórnar og tveggja endurskoðenda
 7. Önnur mál

28. gr.                  

Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur í aðalfundi.

Breytingar á lögum

29. gr.                 

Lögum félagsins má breyta á aðalfundi eða sérstaklega boðuðum lagabreytingafundi boðuðum með  10 daga fyrirvara, hið minnsta, og þurfa 2/3 hlutar fundarmanna að greiða atkvæði með lagabreytingunni til að hún verði samþykkt.

Stjórn er skylt að boða til lagabreytingarfundar ef 25% félagsmanna óskar þess. Stjórn er heimilt að boða til slíks fundar að eigin frumkvæði. Allir félagsmenn hafa rétt til að koma með tillögur að lagabreytingum. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar eigi síðar en 7 dögum fyrir boðaðan fund. Tillögur skulu auglýstar á tryggilegan hátt. Í fundarboði skal þess getið sérstaklega að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og skal efni hennar lýst.

​Heimilt er á aðalfundi eða lagabreytingarfundi að koma með breytingartillögu við löglega fram komna breytingartillögu svo lengi sem tillaga fundarins breytir ekki efni upphaflegu breytingartillögunnar að upplagi.

Lagabreyting öðlast gildi frá þeim tíma þegar hún er samþykkt á aðalfundi eða öðrum lagabreytingarfundi. Á lagabreytingafundi skal fylgja fundarsköpum.

Önnur ákvæði

30. gr.                  

Rekstrarafgangi/hagnaði af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang félgsins.

31. gr.                  

Ákvörðun um slit félagsins skal taka á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða og renna eignir þess til Barnaspítala Hringsins.