Aukinn óstöðugleiki hefur einkennt erlenda hlutabréfamarkaði undanfarna mánuði. Tölur um hríðlækkandi útflutning og áhyggjur af samdrætti í Kína hafa m.a. haft áhrif á markaði víða um heim. Seðlabanki Evrópu hefur gripið til róttækra aðgerða til að örva efnahag evruríkjanna og fróðlegt verður að sjá hvaða áhrif það mun hafa á næstu vikum og mánuðum.

Fylgni íslenska markaðarins við þá erlendu hefur verið sáralítil, og jafnvel engin, síðustu ár. Með væntanlegu afnámi fjármagnshafta má þó færa rök fyrir því að íslenski markaðurinn sé orðinn nátengdari þeim erlendu.

Vísbendingar eru um að markaðsaðilar geri mögulega ráð fyrir auknu fjármagnsflæði milli landa þó ekki sé búið að aflétta höftunum. Á slíkum tíma er áhugavert að skoða hvort, og hvernig eigi að græða á fallandi, eða óstöðugum mörkuðum.

Þriðjudaginn 15. mars klukkan 17:30 munu Ungir fjárfestar halda fræðslufund í kennslustofu V102 í Háskólanum í Reykjavík. Á fundinum verður bæði fræðileg og praktísk umfjöllun um skortsölu.

Einar S. Oddsson sérfræðingur í verðbréfamiðlun hjá Íslenskum verðbréfum flytur erindi um fræðilegu hliðina. Almenn umfjöllun um skortsölu, kosti hennar og galla.

Jóhann Gísli Jóhannesson sjóðsstjóri hlutabréfa og fyrirtækjaskuldabréfasjóða hjá GAMMA mun fjalla um hvernig skortsala á íslenska markaðnum fer fram, hvað þarf að hafa í huga og hvar áhætturnar liggja.

Fundurinn er opinn öllum.